Basl og þungar búsifjar

26. nóv. 2025
Höfundur: bjarnibass
19. öld · Fjölskyldusaga · Suðurland
Greinin er hluti af umfjöllun greinarhöfundar um forfeður sína. Hún birtist áður í Fréttablaði Ættfræðifélagsins árið 2022.

Efnisyfirlit

Ein formæðra minna tók hressilega niður fyrir sig þegar hún giftist fátækum bændasyni eftir að hafa eignast með honum tvö börn í lausaleik. Búskapurinn hjá þeim var með ágætum fyrstu árin en síðar tóku við harðindi og þungar búsifjar og börnin þeirra yfirgáfu næstum öll sína fæðingarsveit. Flest enduðu þau í Reykjavíkur en tvö skírðust til mormónatrúar í henni Ameríku.

Báðir bæirnir í Hjallanesi standa í skjóli af Hjallanesbjallanum en jörðin liggur á mörkum Landsveitar og Holta í Rangárvallasýslu. Á neðri bænum, sem kallað var, bjuggu hjónin Björn Björnsson og Guðrún Jónsdóttir á seinni hluta 19. aldar.

Saga þessarar fjölskyldu er lík sögum margra annarra á Íslandi á 19. öld. Með harðnandi tíð og búsifjum þurftu margir bændur að leggja upp laupana og börnin þeirra freistuðu þá gæfunnar þar sem atvinnu var að fá, annað hvort í þéttbýlinu eða í Ameríku. Foreldrar Björns höfðu búið sem leiguliðar í Hjallanesi í margar kynslóðir en foreldrar Guðrúnar höfðu verið ríkustu bændurnir í Landsveit og þó víðar væri leitað. 

Hekla árið 1893. Teikning eftir Howell.

„Amma okkar og afi bjuggu í Hjallanesi frá því þau giftust og þangað til þau dóu“, segir í endurminningum afkomenda þeirra í Ameríku. Líf Björns og Guðrúnar var frekar fábrotið en um leið að mörgu leyti dæmigert. Af þeim eru ekki til neinar myndir en Björn endaði þó sem sögupersóna í heimildaskáldsögu eftir Guðmund Daníelsson.

Hér verður saga þeirra rakin eins og hægt er; sagt frá ólíkum foreldrahúsum beggja, búskap, barneignum og basli. Þá fylgjum við börnum þeirra áleiðis, tveir synir urðu eftir í sveitinni, tvö fluttu til Ameríku og hin 6 enduðu í Reykjavík.

Til er lýsing á Birni og Guðrúnu í Hjallanesi í ritsafni mormóna í Utah um fyrstu Íslendingana sem komu til Ameríku í þeirra samfélag. Þar er þeirra minnst af barnabörnum sínum eftir heimildum ættingja:

„Afi okkar var frekar stór og mjög sterkur. Hann var greindur en skapheitur og grófur í máli. Hann brýndi dyggðir eins og heiðarleika og varfærni fyrir börnum sínum. Heimili þeirra stjórnaði hann með harðri hendi en kona hans Guðrún leið fyrir það því hún var bæði mild og blíð. Hún kom frá efnuðu heimili og átti auk þess erfitt með að takast á við þá fátækt sem þau þurftu síðan að glíma við. Þau fóru samt aldrei á sveitina, því það að vera sveitarómagi hefði gert börnum þeirra erfitt fyrir, líka þegar þau urðu fullorðin

Björn Björnsson

Drengurinn sem fæddist vorið 1822 í Hjallanesi í Landsveit var næstelsti sonur foreldra sinna, Björns Gíslasonar og Hildar Filippusdóttur. Nokkrum árum áður höfðu þau eignast sinn fyrsta son sem skírður var Filippus eftir móðurafa sínum í Flagbjarnarholti og það hefði legið beinast við að nefna nýfædda soninn Gísla í höfuðið á hinum afa sínum. Það var ekki gert heldur hlaut drengurinn nafnið Björn eins og faðir hans.

Grafskriptarskjöldur úr furu sem Gísli bóndi Guðmundsson í Hjallanesi útbjó til minningar um Auðunn Jónsson prest (1770-1817). Gísli var föðurafi Björns Björnssonar.

Þegar Björn litli Björnsson kom í heiminn var hann fimmta barn Björns og Hildar. Elstur var áðurnefndur Filippus, síðan komu systurnar Guðrún, Anna og Steinunn og loks Björn. Á næstu 11 árum áttu 9 systkini eftir að bætast í hópinn, sex drengir og þrjár stúlkur. Samtals komust 11 af 14 börnum hjónanna í Hjallanesi á legg, 6 drengir og 5 stúlkur.

Leiguliðar í Hjallanesi

Jarðamat fyrri alda segja í Hjallanesi hafa verið góð tún og engjar og mikið beitarland en þó væri fénaði hætt vegna lækja. Svo virðist sem bæirnir hafi verið orðnir tveir undir lok 18. aldar og bjuggu þá synir Gísla Tómassonar á bæjunum, en Gísli var sonarsonur Gissurar á Lækjarbotnum sem flúði tröllkonur í þekktri þjóðsögu. Líklegast er að Gísli þessi hafi verið afi Gísla Guðmundssonar sem segir frá hér á undan þó ekki séu til heimildir sem staðfesta það.

Hjallanes hafði verið í eigu Skálholtsstóls, síðan konungs og undir lok 18. aldar keypti Jón Jónsson sýslumaður á Móeiðarhvoli jörðina. Svo virðist sem afkomendur Jóns hafi verið eigendur Hjallanesjarðarinnar alveg fram til ársins 1901, er hún var seld á uppboði. Forfeður Björns voru því leiguliðar á jörðinni en höfðu búið þar í margar kynslóðir.

Árið 1837 fermdist síðan Björn Björnsson og fór hann svo í vinnumennsku á kirkjustaðinn Skarð. Húsbóndinn þar hét Teitur Finnbogason. Á bænum Mörk nokkrum kílómetrum norðaustan af Skarði bjó bróðir Teits, Jón Finnbogason og þangað fór Björn í vist 1840. Þá var hann 18 ára gamall. Ein af dætrum bóndans hét Guðrún og var hún sex árum yngri en tilvonandi eiginmaður hennar frá Hjallanesi.

Guðrún Jónsdóttir

Guðrún Jónsdóttir sem kom í heiminn á bænum Mörk á Landi árið 1823 fæddist með silfurskeið í munni. Faðir hennar Jón Finnbogason hafði viðurnefnið „ríki“ og var í sinni búskapartíð efnaðasti bóndinn í Landmannahreppi og þó víðar væri leitað. Móðir hennar hét Guðrún Einarsdóttir en var af allt öðru sauðahúsi en Jón.

Á landi Merkur í Landsveit reistu Þór Jakobsson og kona hans Jóhanna Jóhannesdóttir hús um síðastu aldarmót en Þór er afkomandi Jóns Finnbogasonar. Á jörðinni er veðurstöð. Í bakgrunni hvílir Hekla.

Óvenjulegt makaval

Jón „ríki“ Finnbogason var svo sannarlega ríkur á þess tíma mælikvarða. Forfeður hans höfðu lengi verið vel í efnum og frá afa hans Þorgils Þorgilssyni er komin hin svokallaða Reynifellsætt. Foreldrar Guðrúnar konu hans hétu Einar Ásmundsson og Ragnhildur Sigurðardóttir. Árið 1804 voru þau dæmd fyrir sauðaþjófnað og sat Ragnhildur rúmt ár í fangelsinu í Reykjavík, en eftir kagstrýkingu var Einari fyrst haldið föngnum í Reykjavík áður en hann fór að „erviða sína lífstíð í Kaupmannahafnar festingu.“

Einar var síðan náðaður eftir einungis eitt ár í Danmörku og sneri aftur til Íslands og hélt áfram búskap með Ragnhildi. Einar og Ragnhildur áttu aðra dóttur sem hét Þórunn og giftist hún líka stöndugum bóndasyni sem síðar varð hreppstjóri. Eitthvað hafa þær systur því haft annað til brunns að bera en ættgöfgi en hugsanlegt er að örlög föður þeirra hafi haft á sér goðsagnakenndan blæ; hann var einn fárra sem kom lifandi til baka úr þrælakistu Kaupmannahafnar.

Barnadauði þrátt fyrir mikla velsæld

Jón Finnbogason og Guðrún Einarsdóttir höfðu eignast þrjá drengi áður en Guðrún litla fæddist. Athyglisvert er að elsti drengurinn, sem reyndar lifði ekki lengi, var nefndur í höfuðið á afa sínum, sauðaþjófnum Einari en sá næsti síðan eftir afa sínum Finnboga sem þá var óðalsbóndi á Reynifelli. Sá drengur lifði líka stutt, alveg eins og næsti sonur sem fékk nafnið Jón. Síðan fæddist Guðrún og var hún því fyrsta barn hjónanna sem komst á legg.

Næstu ár bættist hraustlega í barnahópinn og fengu sum að lifa og önnur ekki. Eftir að hafa misst stúlku sem nefnd var Guðlaug, fæddust þrjú börn í röð sem náðu að spjara sig; Ragnhildur, Sigurður og Finnur. Þá fæddist önnur stúlka sem skírð var Ragnhildur en hennar ævi var mjög stutt. Barneignunum var hins vegar hvergi nærri lokið. Jón og Guðrún eignuðust níu börn til viðbótar og komust aðeins þrír drengir á legg: Höskuldur, Jónas og Jóhann en sex dóu: tvær Helgur, Finnbogi, Jóhann, Guðmundur og óskírður drengur í lokin. Auk þess að standa í barneignum og halda heimili þá gekk húsmóðirin á milli bæja og tók á móti börnum annarra.

Jón og Guðrún í Mörk eignuðust hvorki meira né minna en 18 börn en þrátt fyrir mikið ríkdæmi og velsæld komust aðeins 7 þeirra á legg. Hverju er um að kenna? Börn voru vanalega ekki sett á brjóst á þessum tíma á Íslandi og hafi börnin í Mörk fengið kúamjólk og rjóma hefur engu verið til sparað og börnin í raun liðið fyrir það og dóu flest þeirra einungis nokkurra vikna gömul.

Elsta dóttirin Guðrún, hefur haft í nógu að snúast við að sinna yngri systkinum sínum, en báðar ömmur hennar bjuggu líka á bænum. Auk þess var alltaf vinnufólk á bænum og stundum tökubörn, oft fleiri en eitt. Það er því ljóst að heimilið hefur verið stórt og margir munnar að metta.

Ungur vinnumaður frá Hjallanesi

Árið 1840 kom hinn 18 ára gamli Björn Björnsson frá Hjallanesi og gerðist vinnumaður í Mörk. Guðrún var einungis 12 ára gömul og því ófermd þegar hér var komið sögu. Lítið er reyndar vitað um lífið á bænum fyrir utan það sem kirkjubækur segja okkur. Ári síðar deyr föðuramma Guðrúnar sem hét Helga, en Ragnhildur móðuramma hennar var ennþá í Mörk og átti nokkur ár eftir ólifuð.

Árin liðu, börnunum í Mörk fjölgaði og Guðrún óx úr grasi. Vinnufólki á bænum fækkaði eitthvað en ungi maðurinn frá Hjallanesi dvaldi áfram í vist. Ekki eru til neinar heimildir um það hvort og þá hvenær Björn og Guðrún fóru að renna hýru auga hvort til annars, en um jólin 1849 var orðið ljóst að heimasætan á bænum gekk ekki lengur ein.

Lausaleiksbarn heimasætu og vinnumanns

4. júli 1850 fæddist stúlkubarn í lausaleik á bænum Mörk í Landsveit. Hinir ógiftu foreldrar voru vinnumaðurinn Björn og heimasætan Guðrún. Daginn eftir var stúlkan skírð Ragnhildur í höfuðið á sauðaþjófnum langömmu sinni, sem dáið hafði á 91. aldursári, einungis tveimur vikum áður.

Færsla úr kirkjubók. Foreldrar Ragnhildar eru Björn Björnsson ógiftur vinnumaður á Mörk og ógift stúlka Guðrún Jónsdóttir á sama bæ. Guðrún Einarsdóttir móðir Guðrúnar tók á móti sína fyrsta ömmubarninu og er skírnarvottur ásamt Þorvarði Erlendssyni á Stóra-Klofa og Sveini bónda Jónssyni á Lambalæk.

Það þótti skammarlegt að eignast lausaleiksbarn á 19. öld og hreinlegast hefði verið fyrir Björn og Guðrúnu að ganga í hjónaband áður en stúlkan fæddist. Það gerðu þau hins vegar ekki. Hver er skýringin á því? Líklegast verður að teljast að mannsefnið hafi ekki verið nógu gott fyrir ríkustu fjölskylduna í sveitinni og þó víðar væri leitað. Í lok árs 1851 er Guðrún skráð í foreldrahúsum í Mörk og er einkennilegt að sjá að nafn Björns hefur verið skrifað inn eftir á, inn á milli annarra nafna í sóknarmannatalinu. Hafði Björn verið sendur í vist einhvert annað? Ekki er minnst á Ragnhildi litlu en hún hefur af öllum líkindum líka verið á Mörk.

Erfitt er að segja til um hvað hefði orðið um þau Björn, Guðrúnu og Ragnhildi litlu ef Guðrún hefði ekki orðið aftur þunguð í lok árs 1851. Jón Björnsson fæddist í júli árið eftir og nú var komið að hinni ömmu drengsins, Hildi, að taka á móti. Jón sem nefndur var í höfuðið á afa sínum, Jóni „ríka”, lifði ekki lengi. Hann dó eftir tvær vikur. Nú voru lausaleiksbörnin orðin tvo og um haustið giftu Björn og Guðrún sig og hófu búskap í Hjallanesi en Ragnhildur varð eftir hjá ömmu sinni og afa í Mörk.

Björn og Guðrún hefja búskap í Hjallanesi

Björn var ekki elsti sonur foreldra sinna. Bróðir hans Filippus var fimm árum eldri og hefði því verið líklegri en Björn til þess að taka við búi í Hjallanesi. Í tíundareikningum Landmannahrepps árið 1849 er Filippus skráður búlaus en þó eigandi lausafjár og árið eftir hafði Björn bróðir hans líka eignast nokkrar kindur, en eins og bróðir hans stundaði hann ekki neinn búskap það árið.

Á Hjallanesjörðinni voru tveir bæir, og Filippus og bóndadóttirin á hinum bænum, Sigríður Sveinbjörnsdóttir, giftu sig árið 1851 og tóku síðan við búskap á hjáleigunni Stekkum í Árnessýslu. Filippus var að nálgast fertugt en Sigríður var tvítug. Þetta var ekki í síðasta skiptið sem ástin blómstraði á milli bæjanna tveggja í Hjallanesi

Árið eftir flutti Björn bróðir hans ásamt Guðrúnu aftur heim í Hjallanes frá Mörk og tók þá við búi foreldra sinna. Í sjálfu sér hefði Björn getað búið áfram á Mörk og tekið við stórbúi tengdaföður síns þegar hann félli frá og Filippus búið áfram í Hjallanesi en það varð ekki raunin. Það kom í hlut Ragnhildar, yngri systur Guðrúnar, að taka við búa í Mörk ásamt manni sínum Jóni Gíslasyni. Líklega þótti Björn ekki þess verðugur að verða bóndi í á stórbýlinu en það eru þó getgátur einar.

Feður Björns og Guðrúnar í Hjallanesi dóu árin 1858 og 1859. Séu borin saman dánarbú þeirra kemur í ljós hversu mikið Guðrún „tók niður fyrir sig“ þegar hún giftist Birni. Munurinn á eignum dánarbúanna er 40 faldur!

Breytingarnar á íbúum Hjallaness voru miklar Þegar Björn og Guðrún fluttu í bæinn. Fyrra árið bjuggu þar Björn Gíslason, kona hans Hildur og börn þeirra, Sigurður, Jón, Guðný og Steinunn, en seinna árið voru allir farnir nema Björn gamli. Sonur hans og nafni hafði þá tekið við búi ásamt konu sinni Guðrúnu og auk þeirra voru skráð á bæinn vinnuhjú, Ólafur Björnsson (bróðir bóndans) og Margrét Runólfsdóttir.

Hildur móðir Björns flutti til dóttur sinnar og tengdasonar á Skammbeinsstaði í Holtum og yfirgaf ekki bara bæinn sem hún hafði búið á heldur líka bónda sinn. Eftir þetta bjuggu Hildur og maður hennar aldrei saman en líklega var um skynsamlega ráðstöfun að ræða frekar en að tilfinningaleg sjónarmið hafi ráðið. Auk þess eru Skammbeinsstaðir næsti bær við Hjallanes svo ekki var langt á milli gömlu hjónanna.

Búskapur og barnalán

Búskapur ungu hjónanna í Hjallanesi var ekki stór í sniðum til að byrja með. Árið 1852 var tíund þeirra ekki há en jókst síðan ár frá ári og 1855 var hún yfir meðaltali í sveitinni. Þeim hefur eftir því sem á leið vegnað þokkalega og auk þess benda annálar áranna í kringum 1850 til þess að tíðarfar hafi verið með ágætum.

Eins og áður sagði fæddist drengur árið 1852 sem fékk nafnið Jón en hann lifði aðeins í tvær vikur. Björn og Guðrún gerðu aðra tilraun til að koma nafni Jóns „ríka“ Finnbogasonar áfram þegar þau skírðu annan dreng árið eftir sama nafni. Drengurinn sá lifði líka stutt og fengu ekki fleiri drengir þetta nafn.

Tveimur árum síðar fæddist loksins annað barn sem fékk að lifa. Finnbogi Björnsson, seinna Bearnson, var elsti sonur Björns og Guðrúnar sem komst á legg. Nafngiftina hefur hann haft frá langafa sínum, Finnboga Þorgilssyni á Reynifelli. Amma hans Hildur tók á móti honum og var þetta eitt af síðustu ljósmóðurverkum hennar því þá um haustið lést hún 64 ára að aldri. Guðrún var orðin ólétt á ný þegar tengdamóðir hennar féll frá og því kom nafngift stúlkunnar ekki á óvart vorið eftir. Hildur Björnsdóttir fæddist í apríl árið 1856.

Fjárkláði og fleiri börn

Systir Björns í Hjallanesi, Vigdís Björnsdóttir seinna Holt, tók mormónatrú og flutti til Ameríku. Hún var virt ljósmóðir í samfélagi Mormóna og hefur eflaust átt sinn þátt í því að bróðursonur sinn Finnbogi flytti síðar vestur um haf.

Eftir ágætis tíðarfar í upphafi búskapar Björns og Guðrúnar fór að harðna á dalnum þegar leið á sjötta áratug nítjándu aldar. Veðurfar kólnaði og fjárkláði barst til landsins, sennilega með skoskum hrútum. Öll skilyrði til búskapar urðu erfiðari og því ekki skrítið að einhverjir skyldu freista gæfunnar og flytjast til búsældarlegri landa. Í Vestmannaeyjum tóku nokkrir mormónatrú og fluttust til Utah. Þar á meðal var Vigdís Björnsdóttir en hún var systir Björns bónda Björnssonar í Hjallanesi.

Árið 1858 fæddist drengur og fékk hann nafnið Guðjón. Sama ár dó afi drengsins, Björn Gíslason sem ennþá bjó í Hjallanesi. Árið eftir dó hinn afinn. Jón „ríki“ Finnbogason og þá fæddist líka stúlka sem nefnd var Guðrún eftir móður sinni og/eða ömmu, en þær hétu báðar Guðrún. Stúlkan lifði ekki lengi en nafna hennar sem fæddist ári síðar komst á legg. Þar með höfðu átta börn fæðst hjónunum í Hjallanesi og fimm þeirra náð að spjara sig. Öll bjuggu þau heima nema Ragnhildur, sem átti ennþá heima á Mörk hjá ömmu sinni. Báðir afarnir og hin amman voru látin.

Bjarni „betri“ og Bjarni „verri“

Af 15 börnum komust 10 á legg, 6 drengir og 4 stúlkur. Árið 1875 bjuggu þau öll í Hjallanesi hjá foreldrum sínum.

Ennþá hafði enginn drengur verið skírður Björn en næstu tveir sem fæddust fengu nafnið Bjarni. Seinna fengu þeir viðurnefnin „betri“ og „verri“ og þótti þessi nafngift hin mesta hneisa, því báðir urðu þetta hinir ágætustu menn, sagði síðar í minningargrein. Örlög þeirra voru hins vegar mjög ólík og má kannski segja að viðurnefnin hafi frekar átt við um líf þeirra en persónuleika.

Tveimur árum eftir að Bjarni „yngri“ fæddist bættist annar drengur í systkinahópinn og hlaut hann nafnið Jóhann. Næstu tvö börn, Helgi og Helga fengu ekki að lifa en síðan fæddist dóttir og var hún þriðja stúlkan sem hlaut nafnið Guðrún, og þar sem hún náði að spjara sig voru komnar tvær Guðrúnar í barnahópinn og tveir Bjarnar. Má velta fyrir sér hvort þetta hafi ekki stundum valdið ruglingi.

Síðasta barn hjónanna í Hjallanesi var Guðbjörn en hann fæddist árið 1871

Fátæktin flytur í bæinn

Áður hefur verið minnst á fjárkláðann sem tók sig upp á Íslandi árið 1855. Veturinn 1858-59 var síðan kallaður blóðvetur vegna alls þess fjár sem þá þurfti að skera niður. Þann vetur hófst svo harðindaskeið á Íslandi sem stóð með stuttum hléum alveg fram á síðasta áratug aldarinnar. Eitt versta árið í upphafi þessa skeiðs var 1866 og er það oftast kallað Þorraþrælsárið. Kristján Jónsson fjallaskáld orti ljóð þennan vetur sem frægt er orðið. Það er ljóst að á þessum tíma hefur verið byrjað að halla undan fæti hjá hjónunum í Hjallanesi.

Ragnhildur elsta dóttir Björns og Guðrúnar flutti á bæ foreldra sinna árið 1862 en hún hafði alist upp hjá ömmu sinni og afa í Mörk. Næstu árin eða alveg til ársins 1876 voru öll börnin í Hjallanesi. Fyrstur til að fara að heiman var næstelsti sonurinn, Guðjón. Hann var 18 ára þegar hann fór í vinnumennsku á bæinn Flagveltu og bjó eftir það aldrei aftur í foreldrahúsum.

Lausaleiksbarnabörn og búsifjar

Þegar börnin í Hjallanesi uxu úr grasi áttu mörg þeirra erfitt með að fóta sig í lífinu. Á sama tíma fór að halla undan fæti hjá foreldrum þeirra með harðnandi tíð, skepnudauða og öðrum erfiðleikum.

Á Hjallanesjörðinni voru og eru tveir bæir sem standa mjög nálægt hvor öðrum. Á þessum tíma bjó Þórður Steindórsson á öðrum bænum ásamt konu sinni Elínu Eyjólfsdóttur. Leiða má líkur að því að nágrannarnir Björn og Þórður hafi verið fjórmenningar en ekki verður farið í þær vangaveltur nánar hér. Samgangur hefur líklegast verið nokkur á milli bæjanna. Um sumarið 1878 yfirgaf þunguð vinnukona hinn Hjallanesbæinn og fluttist yfir Þjórsá á kirkjustaðinn Stóra-Núp. Vinnukonan eignaðist stúlku í nóvember og faðirinn var Finnbogi, elsti sonur Björns og Guðrúnar.

Fyrsta barnabarn hjónanna í Hjallanesi var Jórunn Finnbogadóttir en alls eignaðist Finnbogi 4 börn í lausaleik áður en hann fluttist til Ameríku.

Jórunn Finnbogadóttir var fyrsta barnabarn Hjallaneshjónanna og tóku þau hana inn á sitt heimili. Það hefur fylgt því töluverð skömm að fá lausaleiksbarn í fjölskylduna og ekki virðist sem Finnbogi hafi verið á þeim buxunum að giftast barnsmóður sinni.

Í faðmi frænda síns

Anna systir Björns bónda var húsmóðir á næsta bæ, Skammbeinsstöðum í Holtum og hafði hún eignast 20 börn með manni sínum Tómasi Jónssyni en aðeins 7 þeirra náðu fullorðinsaldri. Anna lést árið 1876 og var Ragnhildur Björnsdóttir í Hjallanesi send á Skammbeinsstaði, sennilegast til að aðstoða við heimilisstörfin. Ragnhildur gerði gott betur og í febrúar 1879 eignaðist hún barn með ekklinum sem var 37 árum eldri en hún. Stúlkan var skírð Anna eftir fyrrum húsmóður, og ólst upp á Skammbeinsstöðum hjá föðurfjölskyldu sinni.

Nú var eins og stífla væri brostin og lausaleiksbörnum unga fólksins í Hjallanesi fjölgaði óðum. Finnbogi leitaði aftur í ból vinnukonu í hinu Hjallanesinu og árið 1880 fæddist Þorsteinn Finnbogason en móðir hans hét Málhildur og var 18 árum eldri en Finnbogi.

Þorsteinn var ekki fæddur þegar Oddbjörg Kolbeinsdóttir gekk með þriðja barn Finnboga og í janúar 1881 fæddist Finnbogi Finnbogason á Óttarsstöðum við Staumsvík. Sama ár eignaðist Ragnhildur síðan aðra dóttur með Tómasi á Skammbeinsstöðum en sú fékk ekki að lifa lengi. Þar með voru lausaleiksbörnin orðin 5 og ekkert barnanna í Hjallanesi búið að gifta sig.

Miklir erfiðleikar í Hjallanesi

Jón Björnsson (1833-1883) bóndi í Austvaðsholti og bróðir Björns í Hjallanesi.

Sumarið 1880 sá Björn Björnsson bóndi í Hjallanesi sig knúinn til þess að þakka samsveitungum sínum og öðrum fyrir „ýtrekaðar fégjafir og aðra kærleiks aðstoð í bágindum mínum og mörgu skepnumissum“. Hann þakkaði sérstaklega sóknarprestinum Guðmundi Jónssyni.

Tíundaframtal Landmannahrepps sýnir að lausafé í Hjallanesi var orðið lítið árið 1879; einungis 3 hundruð en fór síðan niður í hálft hundrað á árinu 1882. Ástandið í Landsveit var erfitt en misjafnt eftir bæjum. Bústofninn minnkaði hratt á báðum Hjallanesbæjunum, hraðar en hjá mörgum öðrum. Í febrúar birtist annað bréf í Þjóðólfi frá Birni bónda. Í þetta sinni þakkaði hann litla bróður sínum Jóni í Austvaðsholti fyrir að útvega sér kú aftur og „gefa að mestu“. Björn segist í bréfinu hafa orðið fyrir “skaða þeim, að missa snemmbæra kú, sem var mitt helzta bjargræði til vetrarins“

„Fellisárið“ 1882

Það er erfitt fyrir nútímamanninn að gera sér grein fyrir því hvað slæmt veðurfar gat haft alvarlegar afleiðingar fyrir menn og skepnur. Í blaðinu Óðni árið 1936 birtist eftir séra Ófeig Vigfússon „Ágrip af sögu Landssveitar.“Lýsing hans á þeim hörmungum sem dundu á íbúum sveitarinnar vorið 1882 sýnir veruleika sem minnir helst á ragnarök:

En þá gerðist það einn góðan slikju-blíðan dag, á sjálfum Páskunum, að á skall alt í einu ómunalegt ofsa norðaustan veður með hörkugaddi og óstæðum stormi, svo að varla eða ekki varð fært húsa eða bæja á milli, og flestar skepnur urðu að vera þar, sem þær voru komnar. Stóð þannig óslitið og nær hvíldarlaust í hálfan mánuð. Ýfðist þá þegar hvert moldar- og sandgári, sem til var í veðurstöðu , og rótaðist upp í grenjandi blindbyl af mold, sandi og möl yfir dautt og lifandi, yfir grösugar lendur, tún og engi, svarf af mest alla, og víða alveg alla grasrót á stórum svæðum, einkum ofan til, á harðlendinu, og fyllti alt, hús og bæi og hvert skjól og skot af sandsköflum, líkt og þegar mest fennir í miklum snjóskafbyl. Var veður þetta svo mikið, að við ekkert varð ráðið, og fáir treystust til úti að vera og reyna að bjarga einhverju af útipeningi.

Hafi árin á undan verið erfið fyrir Björn og Guðrúnu í Hjallanesi má ljóst vera að fótunum var endanlega kippt undan tilvist þeirra þetta vor. Það óhjákvæmilega var skammt undan.

Endalokin nálgast

Björn og Guðrún þurftu að hætta búskap undir það síðasta. Harðindin höfðu leikið þau grátt og loks fór svo að þau brugðu búi og eyddu síðustu árunum sitt í hvoru lagi í sveitinni og á sveitinni. Þau féllu frá árið 1889 með 10 vikna millibili.

Á næstu árum gerðust hlutirnir hratt. Ragnhildur, Hildur, Guðjón og Bjarni „yngri“ voru farin að heiman og árið 1883 flutti Finnbogi Björnsson á slóðir mormóna í Ameríku þar sem föðursystir hans Vigdís hafði búið og starfað í aldarfjórðung. Til er bréf sem Vigdís skrifaði ónafngreindri vinkonu í Vestmannaeyjum þar sem hún prísaði hið nýja líf vestanhafs. Finnbogi hefur haft spurnir af frænku sinni og ákveðið að freista gæfunnar í nýju landi. Það skal ósagt látið hvort sögur af fjölkvæni mormóna hafi haft einhver áhrif, en fjórða lausaleiksbarn hans var á leiðinni þegar hann hélt af stað. Stúlkan sem fæddist í lok ágúst hét Ágústa María og móðir hennar var vinnukona á Korpúlfsstöðum.

Sama ár og Ágústa María fæddist, eignaðist Guðrún „eldri“ Björnsdóttir barn í lausaleik í Hjallanesi. Hún lýsti Jón Jónsson vinnumanni á Flagveltu föður. Drengurinn hlaut nafnið Jón Jónsson.

Hildur, sem var næst elsta dóttir hjónanna í Hjallanesi, hafði farið í vinnumennsku árið 1876 á bæinn Mörk. Hún eignaðist sitt fyrsta barn árið 1884 í lausaleik í Torfustaðahreppi og lýsti Benedikt Jóhannsson föður. Benedikt gekkst ekki við Guðbjörgu litlu og var hún því skráð föðurlaus fram að fermingu. Eftir það hét hún Guðbjörg Brandsdóttir.

Í árslok 1884 hafði ekkert barnanna í Hjallanesi fest ráð sitt og lausaleiksbörnin voru orðin átta. 

Björn og Guðrún bregða búi

Í tíundatali Landmannahrepps 1884 var ekkert fé skráð í Hjallanesi hjá Birni og Guðrúnu en ári síðar voru komnar nokkrar kindur. Auk þess voru 2 hross skráð á bæinn en engin kýr. Eins var á komið með Þórði Steindórssyni á hinum Hjallanesbænum og voru þetta skv. tíundatali fátækustu bændurnir í öllum hreppnum.

Í júnímánuði 1886 fór fram úttekt á húsi og jörð Hjallaness. Auk úttektarmanna voru þar mættir Björn Björnsson sem þar með hætti búskap, Lýður Árnason sem tók við búi og Árni bóndi Árnason frá Skammbeinsstöðum, faðir Lýðs, sem mættur var fyrir hönd landeiganda. Árni og Guðrún á Hjallanesi voru bræðrabörn.Þar með lögðu Björn og Guðrún upp laupana og í stað þess að einhvert barna þeirra tæki við þá varð Hjallanes nú heimili frændfólks þeirra. Sennilegast hefur engu barnanna verið stætt á því fjárhagslega að taka við bænum, og í næsta tíundatali sést að nýi ábúandinn, Lýður, var strax kominn með töluverðan búfénað. Þetta eru vangaveltur einar. Hugsanlega vildi enginn afkomandi Björns og Guðrúnar taka við. Ekkert þeirra var gift og yngsta barnið Guðbjörn, rétt um fermingu.

Í sóknarmannatali sem gert var í desember 1886 eru skráðir nýir húsbændur á Hjallanesi, Lýður og Sigríður. Af gömlu ábúendunum búa þar Björn gamli og sonur hans Bjarni „eldri“. Auk þess er Jórunn Finnbogadóttir 8 ára skráð á bænum.

Síðustu árin

Árin 1886-1888 virðist síðan lítið hafa breyst í lífi gömlu hjónanna; Guðrún var skráð sem niðurseta í Holtsmúla en Björn sem húsmaður í Hjallanesi ásamt Bjarna „eldri“. Árið 1888 flyst Guðrún frá Holtsmúla á Hellna til hjónanna Filippusar Guðlaugssonar og Ingibjargar Jónsdóttur. Guðrún hefur annað hvort ekki fengið eða ekki ekki viljað búa áfram í Hjallanesi og er hún skráð sem niðursetningur í Holtsmúla. Guðbjörn fór í vist á Þúfu en þar bjó uppgjafapresturinn Guðmundur Jónsson sem hafði þjónað Landþingi til 1883.

Bærinn Hellnar, en þar eyddi Guðrún síðasta ári ævi sinnar. Björn bóndi hennar bjó þá ennþá í Hjallanesi en þá kominn á framfæri sveitarinnar.

Þann 30. apríl 1889 lést Guðrún Jónsdóttir á 61. aldursári og Björn 12. ágúst sama ár 67 ára gamall. Í lok september fæddist drengur í Reykjavík hjá Guðjóni syni þeirra og Guðlaugu konu hans. Hann var nefndur Guðbjörn í höfðuð á nýlátnum afa sínum og ömmu.

Ekki skildu Björn og Guðrún eftir sig miklar eignir. Í Skarði í júní var boðið upp dánarbú ómagans Guðrúnar og voru það eingöngu föt, sæng og ábreiða. Lýður í Hjallanesi borgaði m.a. 65 aura fyrir klút og peysu og Kristófer í Vindási fékk forklæði Guðrúnar á 55 aura. Samtals fengust tæpar 10 krónur fyrir allar hennar eignir og skyldu kaupendur borga fyrir 20. september. Eignir Björns voru samtals metnar á 101 krónu og 83 aura. Meðal þeirra var 12 vetra hestur á 35 krónur, þriggja vetra ær á 7 krónur og 1 vætt af haustfiski á 12 krónur.

„Árið 1889 var kærkomið eftir margra ára samfelld harðindi“, skrifar Trausti Jónsson í bloggi sínu Hungurdiskum. Þetta ár fengu Björn og Guðrún í Hjallanesi hvíld bæði tvö sem líklegast hefur verið kærkomin.

Björn og Bjarni í bókmenntunum

Það er fengur að finna efni um forfeður sína í útgefnum heimilda­skáldsögum. Í „Bókinni um Daníel“ eftir Guðmund Daníelsson er fjallað um þá feðga Björn Björnsson og Bjarna „yngri“ Björnsson en lýsingarnar á þeim eru ekki fagrar. Þegar betur er að gáð er ekki allt eins og það sýnist.

Á bakhlið bókarinnar sem út kom árið 1981 kemur fram að höfundur segi „sanna sögu afa síns, Daníels Þorsteinssonar“. Í innsendri grein í Morgunblaðinu 9. desember 1981 eftir Ara Ólafsson er stutt samantekt á því sem bókin fjallar að mestu leyti um:

„…að það henti Daníel Þorsteinsson árið 1885 að taka „traustatakismjör úr farangri samferðamanns síns, Bjarna Björnssonar. Daníel lofaði að bæta tökuna vel, með lambi og fóðra það eða á annan hátt. Þegar dregizt hafði rúmt ár, að smjörið yrði bætt, fékk Bjarni loks leyfi Daníels til að auðkenna sér eitt af lömbum hans, að sögn Daníels sem veð fyrir skuld, en til eignar, að því er Bjarni taldi, og brennimerkti hann sér það. Var lambið áfram á fóðrum hjá Daníel, sem síðar markaði sér lambið með nýju eyrnamarki. Við yfirheyrslur í máli, sem höfðað var gegn Daníel fyrir meint misferli, lýsti hann Bjarna réttan eiganda að lambinu. Árið 1889 gekk dómur í málinu, og var Daníel dæmdur til að sæta fangelsi við vatn og brauð í 5 daga.

Sá Bjarni Björnsson sem hér um ræðir var „yngri“ Bjarni í Hjallanesi og eru gögn um málið til á Þjóðskjalasafni Íslands. Í bók Guðmundar eru lýsingar á Bjarna og föður hans Birni ekki fagrar, en að sama skapi virðist höfundur fegra sögu afa síns eins og hægt er.

Bókin tekin til skoðunar

Í ritröðinni Studia Islandica árið 1996 kom út bókin „Íslenskar heimildabókmenntir. Athugun á rótum íslenskra heimildaskáldsagna.“ Þar kafar höfundurinn Magnús Hauksson undir yfirborðið á nokkrum heimildaskáldsögum, m.a. til að athuga sannleiksgildi þeirra. Í umfjöllun hans um „Bókina um Daníel“ segir m.a.:

En Guðmundur (höfundur bókarinnar) lætur ekki duga að beita mælskubrögðum og ágengum stíl afa sínum til varnar. Hann hagræðir einnig heimildum söguhetjunni í hag… Tilgangur Guðmundar með bókunum er að rétta við orðstír ættmenna sinna. Hann nýtir frelsi skáldsöguformsins til þess að hnika til staðreyndum og skerpa vissa áherslupunkta. Ættarmetnaðurinn stýrir þá gerðum hans.

Teikning af Guðmundi Daníelssyni. Tekið af sarpur.is. Höfundur ókunnur.

Hjallanesfeðgum lýst

En hvernig lýsti Guðmundur Daníelsson feðgunum í Hjallanesi hundrað árum eftir að Björn lagði af búskap og dó í sárri fátækt? Þegar Bjarni Björnsson er nefndur fyrst nefndur til sögunnar þykir höfundi ekki mikið til hans koma:

„Allar til samans námu færur Bjarna víst fjórum fjórðungum. Þungi byrði? Onei, ekki ef borin var í bak og fyrir en Bjarni var ekkert þrekmenni. Hann var linur. Orð hafði hann fyrir að vera langur og linur, en þrjóskur og þrár, nautheimskur þar á ofan. Þetta vissu allir….

Og síðar segir:

„Þunnt bros flaut um magurt andlit hans eins og fitubrák á polli og agnarlítill hlátur dillaði sér í kverkum hans: hi hi hi.

Ekki er ljóst hvaða heimildir liggja að baki, en ásetningur um að fegra sögu síns eigin forföður á kostnað annarra sögupersóna skín í gegn. Um Björn Björnsson í Hjallanesi segir Guðmundur:

„Rotturnar eru dýr vel af guði gerð. Þær athafa sig í rökkrinu þegar enginn sér þær. Þær hafa sterkar tennur í munni, tennur þeirra brýna sig sjálfar þegar þeim er beitt, svo þær sljóvgast ekki, en haldast jafn hvassar alla tíð, þær styttast aldrei, því að þær vaxa frá rótinni jafnt sem eggin slitnar að framan, og ekki þreytast þær í önn sinni. Allt það sama er um Björn í Hjallanesi að segja. Gamall og afdankaður í búskapnum, fátækur eins og rottan í myrkrinu, heldur hann árum saman áfram að naga æruna af Daníel Þorsteinssyni. Hann sópar að sér vottorðum, sem erfitt er að sjá hvaða gagn geri málstað hans, en eru þó til þess fallin að varpa grunsemdum á Daníel. Hreppstjóra sínum gefur hann engin grið, heldur mokar í hann pappírum og sendibréfum, þar sem hálfum sannleika og haugalygi er hrært saman í ólystugan graut, hann heimtar ákæru og sakamálarannsókn vegna svika og þjófnaðar, Björn Bjarnarson.

Lýsing Guðmundar á Birni er ekki bara ósmekkleg heldur líka einstaklega andstyggileg þar sem rithöfundurinn segist vera að skrifa sanna sögu afa síns Daníels. Hvorki Björn né Bjarni sonur hans geta hönd fyrir sig borið og nöfn þeirra svert um elífð.

Í stuttu máli þá tók Daníel Þorsteinsson smjör í leyfisleysi og neitaði síðan að lamb sem merkt var Bjarna Björnssyni væri greiðsla upp í skuldina fyrir það. Að lokum endaði lambið þó í Hjallanesi. Þegar Daníel tók út refsingu sína þremur vetrum síðar var Björn í Hjallanesi látinn. Í fátæklegu dánarbúi hans var að finna tvær skepnur; 12 vetra hest og 3ja vetra ær.

Hvað varð um börnin þeirra?

Ragnhildur Björnsdóttir (1850-1933)

Ragnhildur Björnsdóttir ásamt sambýlismanni sínum Þorláki.

Það var fleira markvert sem gerðist árið 1886. Ragnhildur, elsta dóttir Björns og Guðrúnar, eignaðist sitt þriðja barn í lausaleik. Stúlkan hlaut nafnið Guðný og ólst hún síðan upp hjá föður sínum, Guðbrandi Arnbjörnssyni.

Finnbogi Björnsson Bearnson (1855-1939)

Finnbogi Björnsson Bearnson ásamt fjölskyldu sinni í Spanish Fork.

Finnbogi Björnsson hafði haldið vestur um haf á slóðir mormóna árið 1883. Þar bjó hann um hríð hjá frænku sinni og föðursystur Vigdísi Björnsdóttir Holt, lét skíra sig og kynntst danskri ekkju, Josphine Marie Jensen. Þau giftu sig árið 1885 eignuðust þau sitt fyrsta barn. Drengurinn var nefndur eftir afa sínum á Íslandi en dó sama dag og hann fæddist. Tveimur árum síðar eignuðust Finnbogi og kona hans annan dreng. Hann hlaut nafnið William Finnbogi Bearnson og fékk að lifa. Björnsson var orðið Bearnson og landnám Hjallanesfjölskyldunnar í Ameríku orðið að veruleika.

Ekki er ljóst hvort Guðrún og Björn hafi haft fréttir af syni sínum í Spanish Fork og fyrstu barnabörnunum þar.

Hildur Björnsdóttir (1856-1931)

Hildur Björnsdóttir

Guðjón Björnsson (1858-1926)

Guðjón Björnsson

Guðjón sem var næstelstur bræðranna í Hjallanesi flutti árið 1888 til Reykjavíkur og áttu mörg systkini hans eftir að fylgja í kjölfarið síðar. Guðjón giftist Guðlaugu Jónsdóttur haustið 1888 og þegar líða tók á vorið 1889 var ljóst að fyrsta skilgetna barnabarn Björns og Guðrúnar í Hjallanesi væri á leiðinni, ef frá eru taldir drengirnir sem Finnbogi hafði eignast í Utah og Björn og Guðrún vissu hugsanlega ekki um.

Guðrún „eldri“ Björnsdóttir (1860-1938)

Guðrún „eldri“ Jónsdóttir

Eins og áður sagði áttu Björn og Guðrún tvær dætur sem hétu Guðrún. Sú eldri hafði eignast dreng, Jón Jónsson, sem ólst upp fyrstu árin í Hjallanesi og síðan átti hún dóttur í september 1888 þegar hún var í vinnumennsku á Minnahofi í Hreppshólasókn. Guðný Einarsdóttir lifði aðeins í tvö ár, en foreldrar hennar eignuðust síðan fleiri börn, þótt þau hafi aldrei gift sig.

Bjarni „eldri“ Björnsson (1862-1943)

Bjarni „eldri“ Björnsson ásamt syni sínum Birni Bjarnasyni

Bjarni „yngri“ Björnsson (1863-1943)

Jóhann Bjarnason (1865-1939)

Jóhann Björnsson ásamt fjölskyldu sinni.

Guðrún „yngri“ Björnsdóttir (1869-1924)

Guðbjörn Björnsson (1871-1938)

Að lokum

Þótt saga Björns og Guðrúnar hafi ekki endað vel þá vegnaði börnum þeirra flestum ágætlega þegar upp var staðið. Samkvæmt Íslendingabók áttu þau rúmlega 1700 afkomendur á lífi í mars 2022 og eru börn þeirra sem fluttust til Ameríku þar ekki talin með.

Þegar manntal var gert árið 1890 höfðu börnin þeirra dreifst töluvert. Ragnhildur var vinnukona í Hvammi, Finnbogi bjó í Ameríku, Hildur var vinnukona í Norður-Móeiðarhvolshjáleigu, Guðjón bjó í Reykjavík og lifði af fiskveiðum, Guðrún „eldri“ var vinnukona á Minna-Hofi í Hrepphólasókn í Árnessýslu hjá móðursystur sinni Ragnhildi, Bjarni „eldri“ var vinnumaður á Flagveltu, Bjarni „yngri“ vinnumaður á Saurbæ í Hagasókn, Jóhann var vinnumaður á Glóru í Laugardælasókn, Guðrún „yngri“ á Efri-Reykjum í Úthlíðarsókn og Guðbjörn var vinnumaður hjá föðurbóður sínum Filippusi á Stekkum.

Líf Björns og Guðrúnar hefur verið ágætt framan af og flest barna þeirra komust á legg. En lífshlaup þeirra var samofið sögu sveitarinnar sem þau bjuggu í og harðindi og kuldaskeið grófu smátt og smátt undan tilvist þeirra eins og margra annarra. Árið 1883, eftir fellisárið, voru nærri 10% íbúa Landmannahepps sveitaómagar. Sveit sem í upphafi 19. aldar hafði verið blómleg og búvæn var ekki lengur spennandi kostur fyrir þá sem taka áttu við. Af systkinunum í Hjallanesi voru það einungis bræðurnir Bjarni og Bjarni festu rætur í sveitinni; Bjarni „eldri“ sem bóndi á Tjörvastöðum og síðar Efra-Seli og Bjarni „yngri“ sem vinnumaður í Lunansholti. Hin freistuðu gæfunnar í Reykjavík og henni Ameríku.

Nokkrir afkomendur hjónanna í Hjallanesi. Bjarni „eldri“ Björnsson heldur á sonardóttur sinni Bjarniheiður, síðan Björn Bjarnason, Bjarni „yngri“ Björnsson, Magnús Guðbjörnsson og Guðbjörn Björnsson. Myndin er tekin á bæjarhlaðinu í Efra-Seli.