Michael og Kristjana

25. nóv. 2025
Höfundur: bjarnibass
Óflokkað

Efnisyfirlit

Sjaldgæft var á 19. öld að vinnufólk næði að losna undan vistarbandinu og stofna til fjölskyldu. Mikael Gellisson og Kristjana Pálsdóttir áttu heimili í þurrabúð á Djúpavogi og síðan á Seyðisfirði. Þau eignuðust börn, bæði saman og sitt í hvoru lagi. Kristjana var reyndar gift og Mikael var ekkill og þau bjuggu saman í synd. Í dag eiga þau tæplega 1000 afkomendur á lífi.

 

Því hefur líklega brugðið í brún heimilisfólkinu í Mikaelshúsi á Seyðisfirði þegar bankað var hraustlega á baðstofugluggann hjá þeim snemma að morgni öskudags árið 1885. Bústýran Kristjana Pálsdóttir hafði að vísu kveikt upp eld fyrr um morguninn, sennilega til að hita kaffi og undrað sig á því hvað eldavélin trekkti illa. Það var búið að snjóa nær linnulaust frá áramótum og svo sem ekkert skrítið ef eitthvað stíflaði rörið. Húsbóndinn á heimilinu Mikael Gellisson rúmlega sextugur lá væntanlega enn í rekkju sinni enda var lítið um sjósókn í þessu tíðarfari. Synir þeirra Jón 9 ára og Sigfinnur 4 ára voru að leika sér og Ingigerður dóttir Mikaels, tæplega þrítug að aldri, hafði auga með hálfbræðrum sínum.

 

Það var ákafi í bankinu á glugganum. Fyrir utan var nágranni þeirra Guðmundur í Hátúni og var sérkennilegt að það var eins og hann væri á hvolfi. Guðmundur kallaði til þeirra: „Er allt í lagi með ykkur?“

 

Það hafði alveg farið framhjá Mikael, Kristjönu, Ingigerði og drengjunum að mannskæðasta snjóflóð íslandssögunnar hafði runnið yfir húsið þeirra fyrr um morguninn og Guðmundur hafði grafið sig niður með þilinu að baðstofuglugganum til að sjá hvort einhver hefði komist af.

 

Hörmungardagur

 

Það er erfitt að ímynda sér hversu hræðilegur þessi dagur hefur verið fyrir Seyðfirðinga. Tveimur árum fyrr hafði fallið flóð úr Bjólfi og tekið með sér tvö ung líf en núna voru fórnarlömbin 24. Milli 80 og 90 manns lentu í snjóflóðinu 1885 og fjöldi bæja gjöreyðilagðist. Frásagnir eru til af slösuðu fólki öskrandi á hjálp og af öðrum sem fullir örvæntingar reyndu máttvana að grafa upp ættingja sína og nágranna. Forlögin höguðu því svo til að Mikael, Kristjana, Ingigerður, Jón og Sigfinnur sluppu ómeidd úr flóðinu en sorgin yfir örlögum nágranna þeirra og vina hefur vafalaust reynst þeim þungbær. 

 

Náttúruöflin fara ekki í manngreinarálit; annars hefðu Mikael og Kristjana sem lengi höfðu lifað saman í synd sennilega farist. Jón og Sigfinnur voru launsynir þeirra en Ingigerði hafði Mikael eignast með konu sinni heitinni Sigríði Sigurðsdóttur suður í Hamarsfirði. Kristjana hafði líka verið gift og eignast tvo syni með Magnúsi Guðmundssyni en svo höfðu þau slitið samvistum.

 

Mikael var tæpum 20 árum eldri en Kristjana. Hann var af Berufjarðarströnd en hún norðan úr Vopnafirði. Saman lágu leiðir þeirra á Jökuldalsheiði og þau voru nýfarin þaðan þegar eldgosið mikla 1875 fyllti sveitina af ösku. Mikael þótti orðheppinn, var hagmæltur og hafði fallega rithönd. Hann var líka eineygður. Kristjana var falleg og hún sagði skemmtilega frá, sagði sonarsonur hennar síðar.

 

Líf þeirra var basl og þau bjuggu á mörgum stöðum og þó þau hafi á ótrúlegan hátt bjargast í snjóflóðinu 1885 var dauðinn oft skammt undan.